Veturinn hefur farið ágætlega af stað hjá okkur þótt að einungis gönguskíðasvæðið hafi verið opið hingað til. Mikill sómi hefur verið af vinnunni sem lögð hefur verið í brautargerðina og brautirnar hafa fengið mikla umfjöllun víðsvegar. Nú fer afgreiðslan á Seljalandsdal að komast í samt horf og stefnt er að því að starfmaður verði með viðveru í afgreiðslunni og skíðaleigunni á skilgreindum afgreiðslutímum.

Það styttist óðfluga í að við getum opnað svigskíðasvæðið í Tungudal fyrir almenning. Við höfum verið að vinna við yfirferð á skíðalyftunum um nokkurt skeið og að reglubundnu viðhaldi fyrir veturinn. Við yfirferð á lyftunum komum við auga á nokkur atriði sem þurfti að lagfæra og fá varahluti í sem hafa verið að týnast í hús til okkar undanfarna daga. Fyrstu „yoyo‘in“ hafa verið hengd upp á lyfturnar og eru þær því að verða klárar til notkunar.

Aðstæður á efra svæðinu eru hreint frábærar en þar er mikill snjór. Það er aðeins þynnra á brekkunum í dalsbotninum og á byrjendasvæðinu en við höfum reynt eftir fremsta megni að viðhalda þeim snjó sem kemur á þau svæði. Það er óhætt að segja að það stefni í frábæran skíðavetur á skíðasvæðinu á Ísafirði. Á sunnudag ætlum við að opna brekkurnar í Miðfellinu fyrir æfingakrakka fyrst um sinn. Það vantar herslumuninn neðst í Sanfellslyftusporinu og Dalsbotnsbrekkunni svo að hægt sé að opna fyrir almenning.

Sala aðgangskorta er í fullum gangi á gönguskíðasvæðinu og frá og með mánudeginum verður einnig hægt að versla vetrarkortin í skíðaskálanum í Tungudal á dagvinnutíma.

Við munum auglýsa það um leið á þessari síðu þegar við opnum svigskíðasvæðið í Tungudal.